Haust

Ég ligg í sófanum. Hrossaflugan í loftinu hefur ekki hreyft sig í langan tíma og mér berst samtal bræðranna sem sitja hinumegin í stofunni. Aldursmunur þeirra nemur einni kynslóð.  Þeir eru eiginlega ekki bræður, í fyrsta lagi út af aldursmun og sá yngri er pabbi minn, það er mjög hæpið að feður eigi bræður. Rökkur haustsins umlykur allt. stofan er ekki lengur lýðveldisstofa. Þegar hér var komið á tuttugustu öld var kalda lokaða lýðveldisstofan með mynd af Jóni Sigurðssyni og Hallgrími Péturssyni orðið að lúta fyrir opinni stofu með tekkhúsgögnum. Myndin af aldamótahjónunum þar sem eiginmaðurinn var afturhallandi með gríðarlegt yfirskegg og konan var á svipinn eins og hafa vakað heila vertíð stóð nú í ramma á Hansahillunni, fánastöngin út í glugga og lágmyndin af nefndum Jóni komin fram á gang. Þó var lýðveldisstofan enn í fullu gildi á bæjum eldri hjóna sem presturinn var kvalinn úr kulda tvisvar á ári.

Og bræðurnir ræða saman liðna tíð. Þeim hafði aldrei liðið illa eða verið þunnir aldrei haft neinn undir í nokkru máli aldrei gert ófarir annarra manna að fíflskaparmáli né ræddu kynferðismál. Þeir ræddu örlög fólks. Fólkið sem hafði flutt að Miðhúsum en Miðhús vóru einatt örreytiskot sem var hróflað upp af fátæku fólki milli bæja,  þess vegna "fluttu þau um haustið". Konan á Miðhúsum dó grunsamlega oft eða að hjónin misstu barn, td. úr kíghósta og þá um vorið eins og vorið væri hættulegasti tími ársins. Stundum náði Miðhúsafólkið að ná í matgrannan hreppsómaga á manntalsþingi án uppboðs sem einhverskonar sprota að atvinnurekstri en fór jafnoft handaskolum því ómaginn var hálfviti eða karlægt gamalmenni sem hreppstjórinn hafði fullyrt að gæti rakað og væri tennt í báðum gómum og því óhætt að taka það á þessu lága verði.

Hurðinni er hrundið upp og inn hleypur ein fimm ára og æpir af því að önnur á svipuðum aldri er á ettir henni og svo er strikið tekið fram. Það eru engin sérstök viðbrögð nema hrossaflugan lætur sig hverfa og vinstri fótur þess eldra stendur beint út krosslagður á þann hægri.

Það verða þó greinaskil í samræðunum og hann stendur upp horfir út um gluggann í svart haustmyrkrið og fullyrðir "að hann sé að hægja". Þessi fullyrðing er algerlega úr lausu lofti gripinn og byggir á engu öðru en samúð með fólkinu á Miðhúsum. Séu raunheimar ranglátir skal réttlætið sótt með hægum andvara í draumheima. Barnaskrækir hljóta líka ávallt að vekja bjartsýni.  Hinn yngri ýtir undir hina röngu fullyrðingu með því að gefa í skin að Hann hafi verið þannig í morgjönn að búast hefði mátt við að Hann hvessti. Sem sönnun fyrir því nefnir hann tiltekinn dag í sama mánuði fyrir fjörtíu og sex árum sem hafði byrjað með sama útliti en hægt um kvöldið og Gummi rétt náð ánum inn. Gummi hafði verið heppinn það hafði rignt svo mikið uppúr hádeginu að hann hafði ekki komið því yfir ánna fyrr en undir myrkur og hefði líklega misst lömb ef ekki hefði verið búið að reka féð innettir til í sláturhúsið.

Þetta gaf tilefni til að ræða veðrið frá þessu tiltekna kvöldi til kvöldsins í kvöld og hafði gengið á ýmsu eins og búast má við þó missti ég úr sennilega ein tuttugu ár vegna blundar sem seig á mig. Sá eldri hélt hlut hægjandi veðurhams síðustu áratuga mjög fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband