Dýfingar

Vegna hönnunarmars.

Ég geng niður Bankastræti. Kominn á móts við Stellu sé ég nokkurn hóp fyrir framan stjórnarráðið svona svipaðan á stærð og mótmælahóp þegar verið er að vísa flóttamanni úr landi. Þegar nær dregur sé ég að þetta eru eiginlega tveir hópar. Fjölmennari hópurinn eru karlar yfirgnæfandi, klæddir mittisjökkum og þykkbotna skóm. Konurnar eru klæddar flíspeysum, sumum merktum fyrirtækjum og svörtum deninbuxum. Afturámóri virtist nokkuð jöfn kynskipting í hinum hópnum og klæðnaður fjölbreyttari sterkir litir og höfuðföt. Ég ályktaði að hér væri væru bæði með og mótmæli í gangi útaf þessum vesalings flóttamanni.
Einnig vakti athygli mína að rúta eða kálfur var í bílastæði ráðherra með um tuttugu manns innanborðs.

Ég geng áfram. Þegar ég er kominn að hlið Hannesar Hafstein sé ég að búið er að afmarka reit með gulum véböndum á fjóra vegu með hliði sem veit í norður. Inni í reitnum er einhverskonar kerra eða kassi á tveim hjólum með ækiskjálkum aftur eins og á hjólbörum. Þetta tæki var um 120 cm á hæð með skál eða handlaug ofan á. Maður er virtist embættisbúinn gengur upp tröppur Stjórnarráðsins öruggum skrefum snarbeygir til hægri að þessu fyrirbæri opnar hurð dregur út fjörga lítra glerflösku hellir vökva í handlaugina og setur flöskuna inn í um skáphurðina aftur. Í sömu mund opnast mjó hurð Stjórnarráðshússins og út smýgur ráðherra menntamála og á eftir honum maður í sýslumannsbúningi með kastskeyti á höfði. Sýslumaður heldur bók að brjósti sínu í hjartastað en ráðherrann er álútur. Þeir hlægja næstum ákaft að einhverju og virðast hvorki sjá mót eða meðmælendur. Ráðherrann skottast niður neðri tröppurnar með hægri hönd í buxnavasanum og er nú eins og spurningamerki í laginu en sýslumaður gengur til vinstri að ræðupúlti sem stendur inni í véinu. 
Hann leggur bókina á púltið tekur fundarhamar innan úr púltinu slær honum við og segir að nú hefjist framkvæmd á ályktunum Þjóðmenningarráðs með aðför. Hann kynnir í nokkrum orðum Þjóðmenningaráð, það hafi verið sett á laggirnar af ríkistjórninni að tillögu hagræðingarhóps hennar og sameinist þar öll yfirstjórn menningarmála í landinu. Fullnusta á ályktunum Þjóðmenningarráðs gangi þannig, að fram sé leiddur ályktunarþoli að keytustandi þessum sem innan vébanda sé, sýslumaður lesi reifun niðurstöðu ráðsins og andliti ályktunarþola sé dyfið í keytu ekki styttri tíma en 15 sek. undir umsjón opinbers keytudýfirs Athöfnin hefjist við hamarshögg og ljúki við síðara hamarshögg. Að lokum segir hann að "gasi verði beitt" við broti á allsherjarreglu.

Hefst nú athöfnin á því að sýslumaður les upp konunafn og reifun af ályktunarorðum Þjóðmenningarráðs. Því miður náði ég ekki nafni konunnar þar sem hún byrjaði þegar að öskra er hurð rútunnar laukst upp og tveir fílefldir menn leiddu hana á milli sín upp tröppurnar og að standinum. Sýslumaður les nú af bókinni að kona þessi hafi haldið málverkasýningu og í verkum hennar verið slík mergð af andlitum að til lýta þótti ekki verði séð hvaða merkingu eða þýðingu slíkar draugamyndir eigi að tákna skuli hún dýfast keytu í 15 sek. með aðför. 
Hinn opinberi keytudýfir gefur nú merki og heljarmennin ganga með konuna að stalli. Sá sem stendur vinstra megin heldur vinstri handlegg ályktunarþola í lás fyrir aftan bak með hægri hendi sinni, sama gerir sá hægra megin nema öfugt, lausa höndin er nú lögð á hnakka þolans og hann beygður fram og ofan í skálina. Opinber keytudýfir fylgist með að andlitið sé allt á kafi í þessar 15. sekúndur. Þetta er ljóshærð kona um þrítugt hún heldur áfram að kalla ókvæðisorðum að sýslumanni og hefur í heitingum tekur svo á rás niður tröppurnar og suður Lækjargötu. Karlmaður tekur sig út úr stærri hópnum og eltir hana all nærri henni og skekur sig. Var góður rómur gerður að framgöngu hans. 
Næstur er leiddur úr langferðabifreiðinni Daði Guðbjörnsson listmálari, hann glottir mjög og hefur háðsyrði á vörum gegn ríkistjórn og þingi.
Sýslumaður tekur að lesa reifun ályktunarorð ráðsins. Kom þar fram að málverk Daða þættu ekki næg ástæða ein og sér til andlitsböðunar en þegar saman færi hegðun hans fyrir nefndinni og hitt að hann tæki fulla ábyrgð á starfi og skoðunum yngri bræða sinni þykir samlegð leiða til þess að keytudýfing sé óhjákvæmileg afleiðing þessa. Er nú Daði leiddur fram dyfið í keytuna. Ekki virtist baðið hagga fíflskaparmálum hans og ráku meðmælendur upp óp er hann gekk á brott.
Sá þriðji er hinn fjörgamli Ólafur frá Himinbjörgum alveg hvíthærður. Var honum ekið í hjólastól að tröppum og borinn í stólnum upp á flötina. Hann virtist illa áttaður þó dóttir hans fylgdi honum. Sýslumaður segir að nafni sinn skuli standa og hlýða á ályktunarorð Þjóðmenningarráðs. Hann hefur lesturinn þar sem skáldskaparferill Ólafs er rakinn, sagði að hin síðari ár hefði sigið á óþjóðlega hlið hjá Ólafi. Til rökstuðnings var hending lesin úr ljóðinu Vornótt. Þar sagði:

"Dísin sló á klettinn og vorið flæddi úr klettinum fram flötina".

Þykir þetta ganga freklega gegn þjóðsögum íslenskum og arfi þjóðarinnar og sé Ólafur rétt kominn að andlitsbaði uppúr keytu. Sýslumaður gefur merki um að Ólafur skuli nú leiddur að keytuskál. Hann var klæddur ljósgráum buxum og brúnum jakka í ullarsokkum ofan í fóðruðum bomsum sem hann dró í hverju skrefi. Dóttir hans kallaði að honum: "Pabbi þú manst að halda niður í þér andanum á meðan"! En gamli maðurinn heyrði ekkert. Þeir dyfu honum varlega í keytuna en þá missti Ólafur fónana og virtist ætla að hníga niður. Það fór kurr um hópinn og kona í rauðri kápu kallaði hvort ætlunin væri að drepa gamla manninn, maður við hlið mér var öskrað "Djöfulsins fantar"!!. 
Nokkuð feitlaginn karlmaður um fertugt með sykurtölu í munni tók nú að útskýra ókeypis að það yrði að fara eftir reglum. Ég gat ekki setið á mér að spurja hverskonar þjóð það væri sem eys listamenn sína stöðnu hlandi? Sá feitlagni skýtur nú tölunni út í kinn til að eiga liðugra um mál og heldur áfram að útskýra nauðsyn þess að gera ekki undantekningar á aðför. Hann slær svo skoltum í sundur og veltir tölunni inn í munnholið aftur. Gamli maðurinn er nú borinn á brott. Sýslumaður slær hamrinum í púltið og tilkynnir að athöfninni sé lokið og muni boðað til næstu athafnar þegar veður og ástæður leyfa tekur bækur og blöð saman og gengur til húss.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband