Æskulok

Ég geng út úr sláturhúsinu og legg aftur hurðina í síðasta skiptið, það er hvassviðri, rigning og orðið skuggsýnt. Sumarið er búið stelpurnar sem stóðu á horninu og hlógu við mér eru farnar eitthvert og nú er sláturstíðin búin, löngu búin reyndar ég fékk bara vinnu við að raða í frystiklefanum í fáeina daga. Regnið birtist í geisla flóðljósanna úr mastrinu á bryggjunni, það fýkur af þökum og talsverður sjógangur. Ég geng framhjá beitningaskúrunum og þaðan út á Hafnarstræti. Djöfull er hann hvass. Samt átti ég alveg eins von á að Stullebba væri í gættinni, en þar er allt lokað. Var það ekki í gær eða fyrragær sem Stullebba kallaði á eftir mér úr gættinni að hann gæti ekki séð að sviðin rykju út í Kauffulaðinu þó verðið hefði lækkað á þeim daginn þar áður. Annars þóttu fullyrðingar Stullebba jafnan hæpnar, hann gerði líka engar tilraunir til að færa mikil rök með þeim eða ávarpa fólk eftir stöðu og stétt. Hann bætir í rokið og rigninguna svo ég snarast í innskotið við Kauffulaðsinnganginn. Það eru tvö svona dyrainnskot innibyggð í Kauffulaðshúsið og settu Flateyri á stall með nútímaborgum, engin borg er nútímaborg nema fyrir sona innskot. Ég lít til fjalla, það er einhverskonar söknuður í mér ég finn að hann leggst í herðarnar, það er hvítt í fjallatoppinn og nú finn ég að ekki bara sumarið og sláturstíðin er búin heldur er æska mín er líka. Það sem var verður ekki aftur, aldrei, aldrei að eilífu.

Ég lýt höfði örskamma stund og þegar ég lít upp holdgast ungur maður sem leiftur og gengur inn í skotið.

"Hvern djöfulinn ert að gera hér!" spyr hann.

"Ha! ég er bara að labba heim".

Þótt hann sé bara ári eldri en ég er þessi ungi maður löngu orðinn einn sérstakasti kvistur staðarins. Hann leggur gríðarlega upp úr trausti heiðaleika og vinarböndum. Hefði hann komist á svið á Old vic í London eða Brodway í NY með einræður sínar hefði hann ekki bara hann orðið heimsfrægur, heldur Flateyri líka ekki síður en Liverpool. Hann tekur nú upp sígarettupakka bíður mér og fer að reyna að kveikja í sígarettunni hjá mér. Hann bölvar rokinu í sand og ösku gerir hlé á þeirri sjálfsögðu kurteisi að kveikja fyrst í sígarettu þiggjandans smeygir jakkanum yfir höfuð og kveikir í sinni sígarettu undir jakkanum og réttir mér hana undir eins og ég nota glóðina til að kveikja í minni sem hann gaf mér. Við tökum nokkra smóka þegar hann þrífur úr vasa sér kókflösku og réttir mér. Mér finnst kókið í daufara lagi á litinn en því sterkara á bragðið. Hann fær sér líka vænan sopa af flöskunni réttir mér hana aftur tekur síðan undir sig stökk út á stéttina steytir hnefa áveðurs og fer allhátt með langa þulu gegn veðrinu. Það snarlægði og stytti upp. Ég fæ mér annan sopa rétti honum flöskuna og hann þrífur í öxlina á mér hristir mig eins og hríslu og afholdgast jafn skjótt og hann holdgaðist. Ég ákveð að nota gjörningalognið og held á.

Ég beygi inn sundið hjá Kauffulaðinu og er kominn hálfa leið yfir þegar ég mæti henni. Við stoppum. Hún horfir á mig í rigningunni með hendurnar upp í ermarmunum, það eru dropar í hárendumunum. Ég sé í augum hennar að það er líka allt búið hjá henni. Hún segir ekki neitt en horfir í opið hálsmálið á mér gengur inn í vé mitt og leggur enni sitt á berann án þess að láta hendur sínar úr ermunum. Ég tek laust um herðar hennar og bak. Það er þögn án frekari þrýstings Hún snýr höfði til vinstri og segir :

"Af hverju vilt þú ekki vera með mér" ?

"Ég veit það ekki" seg ég.

Þögn.

Hún horfir upp til mín og segir:

"Þú ert svo fallegur maður".

"Maður" seg ég, "ég er ekki maður"

"Heldur hvað"?

"Ég veidaggi"

"Ertu kanski hrútur"?

"Nei þá væri skrokkurinn af mér í frystiklefanum". Það losnar um spennuna við þessa líkingu og það kemur vindhviða.

"Það er vínlykt af þér varst að drekka"?
"Ja, ég fékk einn snafs hjá Danna áðan"

Ég losa takið og hún stígur úr véböndum mínum á ská afturábak. Segist þurfa að fara. Það var engu líkara en hér hefðu hittst tvö gamalmenni án vissrar framtíðar og konan hefði heilsað Jóni sem Guðmundi og hann Sigríði sem Hönnu.

Ég geng áfram inn á Grundarstíg. Palli Ásgeirs ekur onettir á Rússanum. Gatan er þannig að eitt hjól Rússans er oní polli annað að fara niður í poll þriðja er að fara upp úr polli og fjórða á tæpu hafti milli polla. Svei mér þá ég held að Palli geri ekkert annað en að aka Grundarstíg fram og til baka allan sólahringinn. Ég man ekki eftir að hafa verið þar staddur nema sjá Palla. En hann hlýtur að hafa tekið hlé fyrir átta árum þegar hann kom að Brekku, og þá var Gerða með honum. Þau sátu við eldhúsborðið þáðu kaffi og sögðu fréttir. Þau sögðu frétt af bílveltu og mamma spurði um slys á fólki. Gerða svaraði: "Það kramdist víst mikið" og lagði nokkuð í essin. Bílslys urðu þannig á þessum tíma að bílar óku útaf og ultu, um árekstra var ekki að ræða þar sem fleiri en einn þarf í árekstur. Reglan var sú þegar gagnkynhneigð hjón sögðu frá bílveltu sagði konan frá slysum á fólki eftir að maður hennar hafði greint frá fjölda velta, staðsetningu, ástæðu, skemmd á bifreið og möguleikum á viðgerð. Væri greint frá útafakstri við sveitafólk fylgdi með hvort skemmdir hefðu orðið á girðingum og hvort fé hefði fælst eða skaðast. Ástæður slyss vóru oftast raktar til þess að annað hvort hafði bifreiðastjóri stigið á bensíngjöf í staðin fyrir bremsu eða runnið af bremsu yfir á bensíngjöf, vóru aðrar slysarannsóknir þar með óþarfar. Bílvelta gat verið tímabær frétta og umræðuefni í heilan mánuð frá veltu í nærsveitum Flateyrar.

Vindurinn leikur fyrir ofan húsin og ég staldra framan við Samkomuhúsið. Fyrir eyrum mér óma graðöskur og píkuskrækirnir fá sjómannadeginum áður. Ekki óraði mig fyrir þegar ég rak upp öskrið á sjómannadagsballinu í vor að mér yrði svona innanbrjósts að hausti. Rautt húsið bara stendur án þess að segja nokkurn skapaðan hlut og kannaðist ekki við mig eða hið fyrra. En mér finnst ég ekki getað haldið á nema spyrja um barnaskemmtunina fyrir tólf árum þegar ég kom gangandi alla leið frá Sandi. En húsið man ekkert og horfir framhjá augliti mínu eins og afkróuð kona. Í samkomuhús koma fleiri og gerist fleira en eitt hús getur munað þó á litlum stað sé.

Sjórinn frussar yfir Kambinn og ég geng inn í kjallarann hjá afa og ömmu. Afi gengur um gólf. Ég horfi á þennan gamla mann sem búin er að lifa þá framtíð sem ég kvíði, mér finnst hann hafa rýrnað, bara í dag. Þó er þetta sami afinn og skellti mér á leggjarbragði fyrir síðustu jól með þeim orðum að það væru bara aumingjar sem væru óviðbúnir. Það er sú glettni og fjör í augunum á afa sem entist til hinsta dags. Hann lætur nægja að slá mig eitt högg í öxlina og segir: "Var það sárt félagi"? Þessi spurning var sprottin frá mági hans sem felldi afa í glímu og afi rófubrotnaði. "Það stóð einhver djöfullinn upp úr svellinu". Ég heiti eftir þessu ömmubróður mínum því engir bátar fórust í kringum fæðingu mína svo það varð að skýra eftir landdauðum manni, hann bara dó að hætti skrifstofumanna ekki sjötugur. Ég tók líka við áflogasessi þessa látna frænda míns gegn afa strax og ég stóð út úr hnefa.

Amma hafði skroppið upp til að horfa á sjónvarpið svo okkur var frjálst að nefna myrkrahöfðingjann og skeyta nafni hans og heimkinni við menn og málefni líðandi stundar.

Amma kemur ofan staðnæmist fyrir framan mig setur sig í stellingu og segir: "Nær á sú kýr að bera, sem fær, þá lömb eru rekin á fjall"? Hún breytir um rödd og stellingu og svarar: "Ooo! Helvískur". Það var nokkuð greinilegt að Steinaldarmennirnir höfðu verið á dagskrá sjónvarps. Gengur síðan til eldhúss og mælir: "Viltu nokkuð eiga mig Guðrún mín"? Hún svarar þessari spurningu líka með þriðju röddinni: "Þhöö! Farðu aftur til þeirra sem sendu þig". Amma hlær að þessum nítjándualdar Lokinhamrabröndurum í fimmtánhundruðsextíuogfjórða skiptið snýr sér svo við og er þá orðin Jón hreppstjóri og segir (fer í í karakter eins og leikhúsfólk segir): "Vertu bara rólegur vinur...........ééé....ég er sko yfirvaldið" (hún bendir á embættishúfuna) "veeeertu bara rólegur" (bendir aftur á embættishúfuna).
Þessi brandari er afturámóti orðin til eftir að fullveldi Íslands varð að veruleika.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband