Vanda Sólrún.

 

 

 



Hún kom sjálf bara sex ára alla leið af Seljaveginum og á Bakkastíginn, og það án þess að láta nokkurn vita. Það vóru greinilega miklar vonir bundnar við þetta fyrsta stóra ferðalag.
Það er þannig að þegar maður kemur að tómu húsi hjá afa og ömmu þá ómar allt rýmið af einhverskonar klið. Hvurnig stendur á þessu ? Það er útaf því hljóði sem hvert áhald sendir frá sér, já og eiginlega allir hlutir. Hraðsuðuketillinn segir til dæmis uuuuuuuuuu hann er með neðri vörina svo ofarlega og út þess vegna segir hann uuuuuuu, aftur á móti segir gamla kaffikannan hennar ömmu búúúúú í talsvert hærri tón sem kemur út um stútinn, þessi kanna er uppi á hillu og er stundum notuð undir blóm og þá er hún krullhærð. Það er merkilega mikið af könnum og áhöldum sem eru með eitt auga eða að minnsta kosti annað augað lokað, til dæmis útvarpið og brauðristin, þau eru alltaf í góðu skapi eins og vöfflujárnið það brosir allan hringinn. En hún treystir vöfflujárninu ekki fyllilega, því þetta bros líkist mjög glotti úlfsins í teiknimyndinni um úlfinn og Rauðhettu sem hún þorði aldrei að horfa á nema afi sæti hjá. En ef maður gengur framhjá áhöldunum og lætur sem maður sjái ekkert þá er þetta svosem í lagi, til öryggis hafði hún þó spurt ömmu hvort vöfflujárnið ætti ekki að vera inni í skáp en amma hafði sagt að hún mundi kanski bara baka vöfflur á eftir, vöfflur eru tungan úr vöfflujárninu. Þegar bakaðar eru vöfflur sést greinilega uppí vöfflujárnið og það segir ; aaaaaaa svona svipað og þegar fullorðnir geispa nema ekkert innsog, og gómurinn er hrufóttur alveg eins og í henni, hún hafði líka athugað með puttanum til staðfestingar. Hún hafði farið fram í hol hjá klósthurðina til þess þegar stóra frænkan kom að henni og hún þurfti að snúa sér á táberginu í heilan hring til að allt kæmist ekki upp, sagðist vera með lausa tönn og sýndi henni meira að segja tönnina. Þarna munaði litlu, stóra frænkan skoðaði tönnina kastaði svo hárinu yfir öxlina og var horfin á klóstið. Hvað eru stórar stelpur alltaf að fara á klóstið ? Hún hafði smeygt sér einu sinni með þegar þær fóru saman þrjár í einu. Þær þeyttust um allt gólf í þessu litla rými lögðust mjög þétt að speglunum náðu í dót í skápum potuðu í nefið á sér löguðu brjósthaldarabandið yfir öxlinni flissuðu drógu buxurnar upp og peysuna niður með báðum höndum án þess að hætta að horfa í spegilinn og allt í einu sat ein með buxurnar á hnjánum á klósettskálinni hún hafði aldrei séð annan eins þeyting. Hún spurði hana eins lágt og hún gat og studdi með vísifingri hægri handar á efri vörina rétt fyrir neðan nefið :
Ert að kúka ?

Hinar tvær höfðu heyrt allt saman og fóru að hlægja og þær hlógu án þess að hætta að horfa í speglana. Við svona sjaldgæfar aðstæður ætti maður ekki mikið að láta á sér bera, en kanski hættir maður að kúka þegar maður verður stór stelpa, það er aldrei kúkalykt þegar mamma er nýbúin á klóstinu aftur á móti er súr lykt þegar pabbi er nýbúinn, stundum.

Já. Það má kanski taka fram að ekkert áhald þarf að anda að sér þau bara geta endalaust gefið frá sér hljóð án þess að anda. Fólk skildi varast að halda að þó hvert áhald hafi sína sérstöku meiningu er alls ekki um neina flokkadrætti eða sundrung að ræða þeirra á meðal því hvert áhald er veröld útaf fyrir sig.

Hún opnar útihurðina fer úr skónum og úlpunni og lætur hana falla í gólfið, opnar innrihurðina og spyr án þess að sleppa vinstri hendi af snerlinum :
Hvar er amma ?
Held hún hafi farið út í búð.
Akkuru ?
É veitdekki ábyggilega að kaupa garn.
Hún tekur nú hægri hendi líka um snerilinn og snýr uppá sig, stendur á hægri fæti og tekur nokkrar fettur.
Hvenær kemur amma ?
Veitdiggi.
Þó að það muni hérumbil ekkert um einn afa á heimili er það samt nóg til að það heyrist ekkert í áhöldunum, kliðurinn þagnar og þau bara bíða.
Hún tekur stökk og lendir jafnfætis alveg ótrúlega nálægt þar sem breiða bilið er á milli gólfborðanna þetta er svo nærri bilinu að hún er alveg að falla framfyrir sig. Þetta er ekki allt, það er líka bannað að stíga afturábak svo hún verður að taka annað stökk áfram en lendir þá á bili svo reglan leysist upp. Til að bæta fyrir þessi mistök er tekið langt skref áfram með stórutá eins nálægt borðabili eins og hugsast getur spyrnt með vinstri fæti sem lýkur á því að vinstra hné lendir á skemlinum sem er fyrir framan stólinn sem afi situr í og segir :
Élta að fá ís, segir hún og stingur þumalputtanum í augnkrókinn hægramegin og borar fáein jugg til vinstri og hægri
Já fáðu þér sjálf þú veist hvar ísinn er.
Að ísskápnum eru um það bil fimm jafnfætis stökk. Samkvæmt reglu á að lenda hæfilega langt frá ísskápnum til að hægt sé að opna hurðina, sé lent of nálægt verður bara að hafa það þó að það þurfi að beygja sig afturábak til að sleppa við hurðina. Í þetta skiptið er svo tæpt að hún er alveg að falla aftur fyrir sig og hurðin strýkst við fótinn en nóg til að sleppa. Hún er rétt komin með hendina á ísinn þegar útihurðin opnast og amma kemur inn. Eins og hendi sé veifað er allt orðið breytt, það er komin ný veröld, það sem var áður er ekki lengur. Hún sleppir takinu á ísnum skellir ísskápnum aftur og áhöldin í eldhúsinu frjósa í nákvæmlega sömu stöðu og þau voru þegar útihurðin opnaðist. Hún lítur örsnöggt á gömlu kaffikönnuna til öryggis en kannan er sem steinrunnin það er ekki því að neita að þetta er svolítill léttir.
Hvar vasssstu !! ? spyr hún.
Með inngöngu ömmu í húsið magnast hávaðinn gífurlega. Sex ára stelpa er nógu vel að sér til að vita að það þarf þrefalt textamagn á ömmur til að fá jafn langt svar og mömmur gefa, að öðru leiti virka ömmur hérumbil eins og mömmur. Þær halla höfðinu aftur og svara undir eins með mjög stuttri setningu án þess að horfa á mann, gefa fyrirskipanir út og suður en eins og áður segir þurfa ömmustelpur að vera með þrefalt lengra handrit til að allt gangi upp, svo þar líka að elta þær til að vera alltaf fyrir framan þær. Þegar mamma hringir er hún mjög óðamála í símann út af því að Vanda Sólrún stakk af án þess að láta neinn vita, mamma er með röddina í bassa og þegar mömmur tala meða bassatón þá koma sex ára stelpur bara einu og einu á orði milli. Þetta er alalmunurinn ömmur fara aldrei í bassa.
Og þannig lauk þessu fyrsta stóra ferðalagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 44683

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband