28.5.2012 | 19:42
Sjómannadgsball 1974.
Alltaf! segir hann og þrýsti hönd mína. Pabbi þinn hefur alltaf verið góður við mig. Alltaf! Og hann lýtur höfði sínu og hristir það. Ég horfi oní kollinn, hárið er þykkt og liðað, húðin rauðleit og mjög vot, lyktin megn og ákaflega súr. Hann lyftir upp ásjónu sinni og spyr: Erum við ekki vinir..........? Ha! Alltaf.........? Neðri kjálkinn vísar á hlið. Aftur lítur hann niður og hristir höfuð sitt svo hratt að það myndast dauður punktur um ásinn sem höfuðið snýst um eins og lognið í auga fellibylsins. Hann þéttir handtakið og bætir við: Það hefur alltaf verið gott á milli mín og pabba þíns. Alltaf! Aldrei..........það hefur aldrei komið neitt uppá. Aldrei! Og nú hristir hann hönd mína.
Ég hafði spurt ömmu tíu árum fyrr hvort hann væri ekki giftur.
Hö! Hafði amma svarað. O jú, víst er hann giftur, -----hann er giftur þeirri hálslöngu, sagði hún og vatt óvenju lagt ofan af hnyklinum fyrir næstu prjónalotu.
Ég hafði fyrir löngu hætt að svipast um eftir þessari skrítnu konu hans og nú lina ég handtakið og hann sleppir hönd minni.
Til að að gera þessa yndislegu stund lengri dregur hann nú þessa hálslöngu eiginkonu sína úr brjóstvasa sínum, skrúfar tappann af, þurrkar rækilega koss sinn af vörum hennar með lófa sínum og réttir mér. Það er yfir þessari athöfn blær heiðaleika trausts og sjálfsafneitunnar. Ég tek gúlsopa, þetta er dræ Kláravín, volgt.
Hann fær sér líka snafs án sótthreinsunnar stingur eiginkonunni aftur á sig og upphefur ræðu sína enn á ný án þess að skipta um efni. Ég játa að mér fannst nokkur skuldbinding felast af minni hálfu í þegnum sopa, þó ég væri ráðinn í að borga bara með viðveru sem svaraði meðalsopa en ekki gúlsopa. Honum var þetta undanskot mitt fullljóst þótt flátt væri og greip til þess ráðs sem dugað hefur öldum saman við þessar aðstæður en það er þétt handsal með hægri hendi og að sú vinstri er lögð um herðar viðmælanda þannig að enni er þétt upp við enni. Við þetta breyttist samtalið úr almennu spjalli yfir í algeran trúnað.
Pabbi þinn hefur alltaf sýnt mér stuðning eftir að ég fór að vinna hjá honum. Alltaf! Hann hefur aldrei sagt neitt misjafnt við mig. Aldrei! Ekki styggðaryrði. Aldrei! Til dæmis þegar ég mölvaði á mér hendina þá kom hann og fór með mig uppá skýli. Þetta hefðu ekki allir gert. Nei. Aldrei.
Nú var fullljóst að að hann gat alls ekki verið að tala um pabba minn. Pabbi var ekki með fólk í vinnu og alveg örugglega ekki menn sem handleggsbrotnuðu.
Stúlkan mín var búin að finna mig og lagði hendur sínar létt á herðar mér og horfði á eiginmann þessarar hálslöngu konu. Hún vill dansa.
Við þessa komu varð honum litið upp og nú var enni mitt blautt líka af núningi við hans enni.
Eiginmaður hálslöngu konunnar þekkti lífið meira en svo að þegar stúlka er annars vegar að þá keppir hann ekki um unga menn við unga mey, og þó hann geti otað lagvelktri eiginkonu sinni fram þá er það tímabundin ráðstöfun. Það er ekki fyrr en árum seinna að menn geta sagt kellingu sinni að fara til andskotans ef þær eru með múður. Hann tók þá til þess ráðs að taka með vinstri hendi um hönd stúlkunnar án þess að sleppa handsalinu við mig laut höfði og hristi það án þess að því fylgdi nokkur texti. Þessi athöfn hafði inntak mjög í þeim anda sem tíðkaðist á ritunnartíma Gamlatextamennisins þegar pör vóru gefin hvort öðru eða synir fóru í stríð.
Við gengum í dansinn og hann sat álútur eftir og hjó loftið ákaft með hægri hendi upp við eyra sér, rétti hana svo út og smurði hring rangsælis yfir borðið lét hana svo falla og hristi höfuðið.
Dansinn var hraður og hljómsveitin spilaði og söng: "Vinn æ vos a littell billí beibí just a vonna mama in þeir billov, in þeir mó kandunt fíl þeir mó". Söngvarinn hafði aðra atvinnu meðfram á staðnum.
Klukkan tvö hætti hljómsveitin en hávaðinn minkaði lítið, hurðir vóru settar á gátt og gestum hleypt út í bjarta sumarnóttina. Gatan er ein kös af fólki, ástandið undirlagt af píkuskrækjum, graðöskrum, hlátrum, yfirlýsingum og ályktunum. Ég stend við garðsvegginn hjá Rúnu Odds og orga upp í loftið með skyrtuna alveg fráheppta, stór maður gengur framhjá og gefur yfirlýsingu sterkum rómi sem ég er búinn að gleyma. Garðsveggurinn hjá Rúnu er steyptur allaleið upp að Séstvallagötu. Þetta gefur þeim rómminni tækifæri og ástæðu til að halda ávörp sín uppi á veggnum.
Tvö afburða hraustmenni uppbyrja hrindingar. Samstundis er ruddur fyrir þá hæfilegur völlur svo þeir geti sinnt þessu áhugamáli sínu sem þeir höfðu stundað innan dyra við samkomuhald staðarins allan heila veturinn. Þó í trausti þess að þeir yrðu alltaf skildir að. Tveir menn í lögreglubúningi annar af staðnum og hinn innan úr firði með skipstjórahúfu standa til enda á þessum velli eins og markmenn. Þetta dróg síður en svo úr öskrum eða yfirlýsingum. Þar kemur að annar nær vænni eyrnarfýkju á hinn. Við þetta hrata þeir afturábak og lenda í fanginu á lögreglumönnunum. Til að árétta að hér væru menn í átökum en ekki skepnur, og til að gefa í skin að þarna gerðust atvik sem litu lögmálum rökbundinnar atburðarásar vörpuðu bardagamennirnir orðum á millum sín um framvindu og þó einkum væntanleg úrslit málsins úr fagbrögðum laganna varða, og svo hitt að ekki yrði of langt hlé á óvissuni um framhald bardagans notar eini maður staðarins sem er vel feitur tækifærið og hoppar skáhallt yfir völlinn og gólar. Þá gerist hið óvænta. Lögreglumennirnir ganga með þá undir höndunum á móti hvor öðrum og hrinda þeim saman við mikinn fögnuð áhorfenda. Þetta var alvöru at. Þetta gengur fáeinar lotur sá feiti þverar völlinn galandi á ská einsog bikinistelpa með stigaspjald á hnefaleikum. Þegar þeir sjá fram á að verða ekki aðskilir bresta þessar hetjur í grát og faðmast og sá hlaunamikli tekur úrslita skáann.
Hann rétt nær að ljúka ferðinni þegar hann fær bilmingskjafsögg og hratar upp að vegg. Þetta æsti framámenn götunnar, það lá algert bann við því að snerta þennan mann. Einn fór með langan texta um málið og mátti greina "helvítis" all of í ræðu hans. Gerður var aðsúgur að árásarmanni og hann krafinn svara. Og ástæðan: "Hann hefur aldrei fengið á kjaftinn!!".
Það var logn veðurs bjart og mávurinn flaug yfir. Það er nú fyrst í þessum skrifuðu orðum að ég átta mig á að amma og afi voru sofandi í næsta húsi. Ekki veit ég hvort ástandið róaðist en áhugi minn var vaknaður á öðru og mýkra máli.
Um bloggið
Kristján Sigurður Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.