Matartími í Bragganum 1974

Hann tók stóran smók dró hann ofaní sig og mælti: “Ég sagði á fundinum í sumar að vargurinn færi strax í þetta ef það væri ekki urðað jafnóðum". Þessi aðferð, að tala meðan reyknum var andað frá var ekki á færi nema örfárra manna og kostaði mikið öryggi og vel grundvallaða vissu, bæði almenna og sértæka um það málefni sem um var rætt. Minni menn höfðu hvað eftir annað reynt þessa aðferð en klikkað á að grundvalla málið sem endaði á að þeir tóku sér til höfuðs boruðu í augnkrók og blésu að lokum reyknum hóstandi út. Hann drap í síkarettunni til merkis að umræðu málsins væri lokið af hans hálfu, rak út tungubroddinn myndaði yfirþrýsting í munnholinu og tvítók tunguna inn með smellum til að kasta tóbaki úr síkarettunni sem sat á neðri vör, hreinsaði leifar af reyknum út um nasirnar dró aftur loft og strekkti á hálsvöðva þannig að hægra munnvik gekk aftur. Þetta gerðist á leifturhraða. Ég mat stöðuna þannig að rétt væri að snúa talinu að þeim fyrir sunnan. Hvort ég ætti að taka einstaka ráðherra fyrir, ríkisstjórnina sem heild eða forseta Alþýðusambandsins blasti ekki við svo ég valdi Vilmund Gylfason sem allbreið samstaða hafði náðst um að væri rakið fífl. Vilmundur hafði boðið sig fram fyrir Alþýðuflokkinn í Vestfjarðakjördæmi, þetta varð hin mesta sneypuför. Vegagerðarmenn neituðu að slétt úr hlössum sínum svo hann kæmist leiðar sinnar, bændur hótuðu að sleppa graðnautum, útgerðamenn buðu drekkingu, verkafólk bindingu við kaga og sjómenn við siglutré. Menn bræktu að honum að spillingin væri mest fyrir sunnan, að það væri stjórnarskrá í landinu, að hann væri á móti bændunum, að hann hefði aldrei migið í saltan sjó, kölluðu hann Orðhvat og hröktu hann í orðum á allavegu án þess að falla verk úr hendi eða taka út úr sér nagla við smíðar á meðan. Hér þurftu menn lán, gerfitennur, styrki og vegabætur. Ég var kominn með vel mótaða fullyrðingu um Vilmund þegar bóndi innan úr firði hefur mál sitt og urðu þá aðrir menn að þegja. Hann hafði þann háttinn á að loknum málsverði greip hann dagblað og hóf óbeðinn upplestur úr blaðinu. Texti blaðanna laut mjög í lægra haldi fyrir athugasemdum hans sjálfs. Hann stóð ávallt upp og setti stígvélaðann fótinn upp á stól stóð í hinn og þrumaði hásri röddu um stjórnmálaástandið. Af nægu var að taka þar sem þetta var þingrofshaustið. Hann hafði lengi verið grunaður um að vera ekki framsóknarmaður og töldu sumir það víst og miðuðu við afskipti hans af málefnum ungmennafélaganna. Fljótlega fór svo að vegna framígripa matargesta varð hann að leggja frá sér blaðið og einbeita sér að andsvörum, stóð hann þá í báðar. Bóndi þessi var skotmaður í sláturstíðinni og ég var blóðgari sautján ára gamall og stúlkan sem hrærði í blóðinu var sextán, bar ég mjög hvolpana út af stúlkunni og öðrum stúlkum sláturhússins. Féð var rekið fram til skotmanns og stóð hann í meters hæð frá gólfi. Af þessum palli hélt hann áfram að halda ávörp sín sem færðust í aukana eftir hádegið. Fyrirrennari hans var ávallt mættur uppúr hádegi til að segja til um hvernig best væri að bera sig að, annar fastur gestur var sá sem sótti hausana. Enginn vissi til þess að þessir tveir hefðu nokkurn tíma strokið mönnum meðhæris. "Þetta er komið gott Nonni minn" sagði eldri skotmaðurinn þegar borðið var fullt af dilkum og sá mjög í hvítuna, hann horfði mjög ásakandi á mig. Þessi fyrrverandi skotmaður hafði þannig útlit að hann hefði getað orði miljóner sem ljósmyndafyrirsæta en mér vitandi er ekki til ljósmynd af honum. Hann gekk uppá pall til skotmannsins og gestgjafinn opnaði skápinn tók út flösku í búnum poka sem þeir supu báðir af og töluðu blíðlega hvor til annars í lágum hljóðum. Ræðuhaldari stingur flöskunni aftur í skápinn og fyrverandi skotmaður horfir á mig yfir hendi sína þar sem hann þurrkar veitta veig af vörum. Það var morð í augum hans að mér virtist en ég bara glotti framan í hann. Nú gengur hann af palli niður á gólf og er rétt komin út þegar skotmaður kallar á eftir honum : "Hvenær heldur að þeir komi" ? "Það er ómögulegt að segja Nonni minn!!" svara ég hátt og snjallt með röddu fyrrverandi skotmanns og snýti mér eins og hann að og lét nokkur aukahljóð fylgja til að undirstrika túlkunina. Viðstaddir frusu. Samkvæmt órofinni hefð sem var ígildi laga á norðanverðum vestfjörðum lá strangt bann við að herma eftir manni fyrir framan skyldari ættingja en í fjórða lið og mægðra í þriðja. Eldri bróðir minn sem ók líkbörunum á milli húsa hafði gengið um hús og hlöð í líki og með rödd texta og látbragð allflestra bænda fjarðarins og kalla eyrarinnar svo mér fannst ekki ofbrátt að ég líkti opinberlega eftir einum þeirra. Köllunum í hausaskúrnum þótti þessi spjátrungur, sem var þarna að hefja atvinnuferil sinn, með ólíkindum og ræddu sín á milli hvað gengi að honum eða hvað honum gengi til. Afi sem var einn af hausaköllunum svaraði öngu, hann átti bæði konu og börn sem gleyptu eftir þó innan ramma laganna. Einn hausakallinn með contratenórrödd og slaka neðri vör nýtti allar pásur til að fara út úr skúrnum að fylgjast með þessum ólíkindum. Hann hafði unnið ár eftir ár við hausaklippingar og var nefndur Hausi okkar á milli. Þar kom að hann gat raunverulega stöðvað þennan dótturson vinnufélaga síns, tekur um axlir hans nær augnsambandi og spyr : "Reykir þú hassí" !!!!!!? Hann var umsvifalaust nefndur upp og heitir ……………….Hassí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 44995

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband