2.4.2014 | 21:13
1976
Alltaf hafði Hemmi-Króna betur, sama þótt hann fengi bara þriðjung af tíkallinum þá náði hann að snúa honum af mér. Ég varð að gera eitthvað í málinu. Og á mánudagsmorgni var ég ráðinn í aðferðinni. Ég tek tvo tíkalla úr símasjóðsskálinni frá kallinum sem ég leigi hjá og sting þeim á mig fer svo í Iðnskólann. Fyrir hádegi erum við á þjöl að raspa til hamarshaus. Mér þótti þetta leiðninlegur starfi en var þó alltaf með þeim efstu í umsögn kennaranna. Kennarinn fræddi okkur um að á Spáni gengju vændiskonur á milli rúma á spítölum og fróuðu karlsjúklingum uns þeim yrði sáðfall. Þessi lækningaaðferð vakti engan áhuga hjá piltum bekkjarins og féllu frekari umræður um málið niður. Þó hugsaði ég hvað yrði um vændiskonur þessar þegar FRAB mundi sigra Franco. Ari Trausti kommúnískur gúrú minn kenndi mér að Lenín hefði byrjað á að láta skjóta allar vændiskonur í Moskvu eftir að hann náði Vetrarhöll keisarans á sitt vald. Og nú var komin hádegismatur.
Fékk ég mér tartalettur án þess að kaupa drykk fyrir illa fengnu tíkallana.
Ég sagði bekkjarfélögum mínum yfir borðum frá því að ég hefði lent í perra í gærkveldi. Hann hefði rennt uppað strætóskýlinu og spurt hvað klukkan væri. Hálf níu, seg ég. Fyrir einskæra tilviljun var hann á leið niður í bæ þar sem ég ætlaði að taka tvistinn upp í Sólheima. Önnur tilviljun. Haldið að kommekki í ljós gengt Hljómskálanum að hann á líka leið upp í Sólheima. Þetta var alveg kjörin tilviljun og aka mér í leiðinni. Hann var nýbúinn að fá bílinn af verkstæði og var síst að skilja í að hanskahólfið var fullt af klámblöðum. Því til sönnunar bíður hann mér að skoða. Ég sé að þetta eru svona spássíulaus klámmyndablöð af því tagi sem við Kristjón stálum af blaðasala sex árum fyrr. Hann tekur nú upp rafmagnslukt og lýsir upp blöðin meðan hann ekur. Hann kunni góð skil á myndum þessum gaf lýsingu hvað væri að gerast og leitaðist við að gera atburðarás myndanna lifandi fyrir mér. Ekki var laust við að hann styndi í lok hverrar setningar. Ég eins og áður hafði öngvan áhuga og setti blöðin aftur í hanskahólfið og lokaði. Við vórum komnir uppá Suðurlandsbraut þegar hann spyr mig "í hvorri skálminni ég láti hann liggja".
Þetta hafði ég bara aldrei hugsað út í svo nú kom vasaljósið sér vel. Hann lýsir upp klofið á mér og telur hann "liggja í hægri skálm". Þessi rannsókn kostaði að athyglin beindist mjög frá akstrinum og var bifreiðin komin á vinstri vegarhelming er ég greip í stýrishjólið og bjargaði árekstri. Sagði ég að nú vildi ég heim eins og hann hefði lofað og varð hann við því. Hann bíður þó brennivín heima en ég vill ekki brennivín og ítreka með dökkum barýtón að ég vilji heim. Þegar heim var komið vill hann þreifa til staðfestingar. Ég slæ á hægri hendi hans með þeirri vinstri svo þreifingarhönd hans lendir með púlsinn á gírstönginni. Þetta var nokkuð högg og hann æjaði. Hef ég upp þá hægri og býst til að slá láti hann ekki af rannsókn sinni.
Nú nú! Allur bekkurinn spyr í kór: "Var hann á rauðum volkswagen"?
Áratugum seinna verður illræmt að maður þessi hafi með spánskri aðferð gengið óumbeðið á milli sjúkrabeða með þeim brigðum þó að hans var sáðfallið en ekki sjúklingsins.
Eftir matinn, í logsuðutímanum, sýð ég handfang á báða tíkallana lýkur svo skóladegi og gerður stanz á brúnni við inngang skólans. Samveran þar byrjar á sígarettu, eldur er fengin hjá félaga með mikilli grettu og hliðarfettu og sígarettuhöndin látin falla alveg magnvana með síðu eftir fyrsta smók. Upphefst nú graðkurr sem magnast í takti við fliss og fettur hárgreiðslustúlknanna sem standa gengt okkur í ákaflega aðskornum fötum. Ég kalla athugasemd og ein stúlkan flissar beygir sig fram svo aftur og lyftir vinstra fæti upp með hnébeygju eins og hún sé að verjast þvagmissi. Mér verður einhverra hluta starsýnt á læri rass og maga hennar. Stöllur hennar svara og flissið magnast sem aftur gera illa rökstudd graðhljóð okkar megin almennari. Þeim er beint að stúlkunum. Þessi athöfn var vegna yfirvofandi dauða. Guði hafði mistekist að skapa verur sem lifað gátu til eilífðar hér á Jörðu svo honum datt ekkert betra ráð í hug en að láta verur þessar fjölguðu sér með æxlun í stað þeirra sem dóu, allavega til bráðabyrgða. Er það hreyfiafl allra hluta síðan.
Þau börn sem þetta unga fólk sló undir með hita og svita við þröngar aðstæður í Reykjavíkur basla nú við skuldir og eiga sum nú dætur og syni sem eru byrjuð að flissa og hrópa vegna Hræsvelgs.
En ég ætlaði að prófa tíkallinn á Hemma-krónu. Vandinn var að Hemmi hélt sig á Laugaveginum og ég ætlaði að fara í mótmælagöngu sem átti að ganga frá Hljómskálanum og út á Lækjartorg. Mótmæla átti Franco, endurskoðunarsinnum í kommunistahreyfingunni og aðstöðu Bandaríkjastjórnar á Miðnesheiði, líka átti að hvetja kaffibændur á Suðurlandi til að sameinast. Þegar á Lækjatorg væri komið átti að hrópa vígorð gegn þeim sömu einnig átti að hrópa hvatningaorð til skæruliða ss. FRAB, IRA, RAF, PLO og bænda í Suður-Ameríku. Síðan skyldi gengið til lestrar á lofti húss sem Humarhúsið er núna og ræða til mergjar hvað öreigi væri. Var það framhaldsskilgreining frá vikunni áður. (Ég skýt því inn að síðar frétti ég að fámenni hefði verið í þessari göngu. Náði tala göngumanna ekki helmingi af fjölda nasista sem héldu skotæfingu á Þingvöllum fjörtíu árum áður, meira að segja í búningum þó skort hafi áskilin stígvél. En hverju breytir það þegar hugsjónaeldur lifir í ungum brjóstum hvort stóra skrefið er stigið fram á vaðstígvéluðum fæti eða berum)
Færi ég í þessa göngu yrði krónusnúningurinn ekki prófaður á Hemma. Ég ákveð því að finna Hemma og taka frekar mótmælagöngu framhaldsskólanema sem átti að fara niður Laugaveg.
Hemmi er á sínum stað. Rétti ég honum tíkallinn og gef honum tvo þriðju. Hann tekur þegar að snúa og toga, þó hann hafi undirtökin gengur honum ekkert og þótti þetta frá líkindum miðað við úrslit síðustu viku. Þessum ójafna og óheiðarlega leik líkur með því að ég stakk á mig tíkallinum. En Hemmi var ekki hættur. Hann sagði að raunverulega hafi Guð ætlað sér þennan sérstaka pening og láti ég ekki peninginn af hendi muni það koma niður á mér þó seinna væri. Nú var ég kominn í vanda sem ég hafði ekki reiknað með, ég átti bara þessa tvo ásoðnu tíkalla og allt kæmist upp færi ég að vilja Guðs í málinu. Í staðinn biðst ég til að ítreka við skólafélaga minn loforð um þykka úlpu sem hann hafði heitið Hemma fyrir áramót. Féllst Hemmi á það. Mótmælagangan er á leiðinni og handsala ég loforðið við Hemma og fer í gönguna.
Farið var með ópum niður Laugaveg og alla leið að Alþingishúsinu og kallað á þingheim. Eftir stutta stund kemur Mattías Mattíssen fjármálaráðherra út og foringjar vilja afhenda honum bók. Matti jórtrar tiiggigúmí tekur sposkur við bókinni og flettir, hann flettir svo hlægjandi bókinni framan í mótmælendur og reynist þetta hvítbók án ritaðs mál. Honum er tilkynnt að bókin geymi aðalnámskrá framhaldsskólanna.
Ég er kominn heim um sexleitið og finn strax að eitthvað er að hjá leigusalanum. Tuttugu kall!! Hann fattar það djöfulinn ekki, leigan er greidd svo hvað getur amað að?
Ég fer inn í eldhús og fæ mér kaldar fiskibollur sem Sigga frænka gaf mér en sleppi kartöflunum vegna andans í loftinnu. Þær vóru hlutur karlsins á móti bollunum í gærkveldi. Ég finn að hann stendur fyrir aftan mig og nú leggur hann símreikning á borðið fyrir framan diskinn og styður báðum höndum á borðið sitt hvoru megin við mig. Ég fæ mig hvergi hrært. Þetta er reikningur uppá tugi þúsunda.
"Berlín Róm!!!!!!! Hvað á að þýða að hringja til Berlínar, ha"!! og Rómar".
Hann réttir snögglega úr sér æðir um gólf kveikir í pípu og veifar höndum. Reykirnir standa í kringum höfuð hans þegar hann gekk um gólfið. Sveitungi hans var í heimsókn í dag og hafði hann sýnt honum reikninginn, sá vissi allt um símreikninga hafði meðal annars lagt símann yfir Holtavörðuheiði 1926. Sá hafði líka sagt honum að hrina svona símreikninga hefði borist kunningjum og vinum sem leigðu skólastrákum herbergi. Að skólapiltar væru úr sveit dygði bara fyrsta mánuðinn þá væri borgarmenningin búin að spilla þeim og þeir jafnvel komnir í samband við erlendar skæruliðasveitir eða páfann í Róm. Hið hataða Verkaklíðsblað frá EIK-ML kom með Mogga karlsins. Það fór ekki framhjá neinum hvernig pilt hann sat nú uppi með.
Ég átti engar varnir og gat ekki annað en starað á þennan reikning uppá morð fjár. Skáhallt yfir reikningi stendur daufum en stórum stöfum: SÝNISHORN, Póstur&Sími var að tölvuvæðast. En reikningur þessi sem hafði hlotið endurskoðun fyrrum stauramanns sem hafðist við í tjaldi á Holavörðuheiði fyrir fimmtíu árum heilt sumar varð ekki vefengdur. Eftir nokkra umhugsun stend ég upp og lofa að greiða þetta á pósthúsinu á morgunn skólastyrkurinn hefði borist í dag og mundi ég sækja hann þangað á morgunn. Upphæðin mundi nægja uppí þetta.
Kallinn mýkist strax og vill sjálfur greiða önnur símtöl en þau sem vóru til Baader Meinhoff, RAF og Páfans. Hann hellir uppá rótsterkt kaffi og tók ekki annað í mál en að kaffið væri tekið úr sinni kaffikrús.
Um bloggið
Kristján Sigurður Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 44995
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.