18.1.2013 | 18:48
Endurkoma Krists.
Ég hitti kunningja minn hér fyrir utan, við höfðum ekki sést lengi, heilsuðumst og tókum skraf saman. Þegar við höfðum lokið þessu venjulega, eitthvað að gera og og svona segir hann :
Jesú Kristur kom til mannheima í gærdag.
--Ha ! Nú !!.
--Já, hann lenti einhverstaðar austur í Vík
--Vík í Mýrdal?
--Já, skýjabólsturinn sást á ratsjá Veðurstofunnar og þær héldu að Katla væri farinn að gjósa.
--Hvað segirðu!
--Hann kom við á bæ þarna fyrir austan og hundarnir létu á engu bera.
--Hundarnir afhverju áttu þeir að taka eftir einhverju sérstöku?
--Ja, það hefur alltaf verið sagt að skepnur sjái ýmislegt sem menn sjá ekki.
--Var þetta þá ekki bara fallhlífastökkvari?
--Nei hann kynnti sig fyrir bóndakonunni og sagði: "Mig þyrstir". Og þá þekkti konan hann strax, hljóp inn og sagði við fólkið á bænum; "Hann er kominn"! Maður konunnar hélt að viðgerðarmaðurinn væri loks kominn til að gera við mjólkurkælinn og þusti út í fjós en sá engan. Það var ekki fyrr en konan kom aftur út að Hann gaf sig fram og sagðist heita Þorsteinn Steingrímsson.
--Þorsteinn Steingrímsson!!?
--Já, og hann ætlaði niður á Þorlákshöfn að vinna í trésmiðjunni.
Ég varð mjög hugsi. Hvernig yrði með afskriftir skulda? Hvað yrði með perrana eða flugdólginn? Ef gengi krónunnar mundi hækka mikið hvað þá? Af hverju tóku hundarnir ekki eftir neinu? Vóru svín á bænum? Var það nýtt tákn að bóndinn hafði ekki fé heldur beljur?
Það var svo viku síðar að þessi kunningi minn kemur aftur.
Já. Þetta var hann Jói Sakk sonur þeirra Betu og Sakka. Hann leigir herbergi í kjallara hér í Vesturbænum. Ég var að ditta að bílnum þegar hann gengur framhjá í dag og náttla tókum við tal þar sem frá var horfið um daginn.
Ég spyr : Hvernig fór þetta hjá Þorsteini eða Jesú Kristi fékk hann vinnuna niðrá Þorlákshöfn?
-- Ja það fór nú ekki vel. Hann breytti einni mjólkurfernu í vín og veitti fólkinu sakramenti svo þegar það var búið þá bað konan hann um að taka bíl dótturinnar niðrá Selfoss sem var sjálfsagt mál.
Hann var svo rétt fyrir utan bæinn þegar lögreglan stöðvar hann og biður um ökuskírteini og létu hann blása og það kom náttla heilmikil mæling enda alltof sterk blanda, hann hafði aldrei breytt mjólk í vín áður.
-- Og hvað svo--- fóru þeir ekki með hann niðrá Heilsugæslu?
-- Jú, jú það var farið með hann þangað og dregið úr honum blóð og svo á lögreglustöðina í skýrslutöku, en hann neitaði að svara öllu svo þeir náðu í sýslumanninn.
--- Sýslumanninn!!!!
-- Já. Sýslumaðurinn byrjaði á að spyrja hann: „Hvaðan ertu?" En Þorsteinn veitti honum ekkert svar. Sýslumaður segir þá við hann: „Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að setja upp þvaglegg hjá þér?
Þorsteinn svaraði: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér væri ekki gefið það að ofan.
Eftir þetta reyndi sýslumaður enn að láta hann svara er hann svaraði engu.
--Þvaglegg eins og við konuna um árið,--- var það ekki bannað?
-- Jah! Það var ekki að sjá. Sýslumaður sagði allavega við lögregluþjónana: „Sjáið manninn!" Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta setja þvaglegg í hann.
Ég varð svo hissa að ég átti ekki orð, vissi að Jói Sakk hafði alltaf verið skrítinn. En nú hafði steininn tekið úr. Ég opnaði húddið á bílnum og fór að bogar í vélinni lít svo upp og spyr:
--Hvernig veist þú þetta allt?
--Ég er búinn að vita þetta lengi og tala mikið um að þetta yrði svona, þegar þeir settu upp þvaglegginn upp í hana Maríu frá Magdölum þá var það tákn og ég talaði um það en enginn vildi hlusta.
--Tákn!!!! Og hvar hefur þú verið að segja þetta?
-- Allstaðar! En það er eins og að hrópa í eyðimörkinni það virðist enginn heyra.
Sem betur fer hringdi síminn og ég svaraði. Jói Sakk hélt af stað gangaðdi undir handveifu minni. Að símtali loknu varð ég mjög hugsi. Hvaða rugl er þetta í Jóa? En ég gat ekki séð betur en hann meinti það sem hann var að segja. Sé þetta satt hvernig fer með þennan Þorstein? Mun blóðið sem á að senda suður í rannsókn þá ekki vera blóð Krists? Fær maðurinn vinnu á Þorlákshöfn, hann er varla með gildt résmíðaréttindi innann EES og hvernig er með þann sem kemur af himni er hann ekki fyrir utan Sengen? Það er nú eitthvað fyrir Árna Johnsen nema Árni vilji fá náðun? Nei Árni fékk náðun frá annarri þrenningu sem margir vilja meina að ráði amk. einhverju á himni líka.
Þetta er nú meiri endaleysan.
Um bloggið
Kristján Sigurður Kristjánsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.