Sumarmorgunn


Ég geng átta ára á eftir honum niður stigannn. Hann byrjar að syngja í honum miðjum, “Til eru fræ”. Niður á gólfið, gegn um gamla eldhúsið inn í gamla búrið þar sem gúmískórnir eru. Ég hoppa í mína nr. 8 hans eru í “stórunúmerunum”. Og hann smýgur í vinstri svo þann hægri, tvístappar fætinum en verður loks að bregða vísifingri snöggt um hælinn og létt stapp í gólfið og fram skórinn situr.
“Ööööþemm”!
Hann dregur nú loft með hægum stíganda upp í hægri nös, svo aftur með samsíða munnvik og gerningurinn endar í sambiti augntannana. “Hjúndurinn” er eins og ávallt að falla í öngvit af spenningi notar tækifærið og nær fram umtalsverðrii slökun með því að smjúga fyrirhafnalaust út um leið og næg rifa myndast milli stafs og hurðar.
“Og lítil börn, sem aldrei verða menn”.
Hér stöðva ég eftirförina geng að skilvindunni og styð vísifingri á lofttúðuna svo á öxulinn á sveifinni og horfi á bak honum með hægra auganu gegnum glerið sem er tvöfalt skargler. Miðið er skör í glerinu, buxnavasinn, þaðan sjónhending í heimreiðina.
Mig kennir því litlu börnin sem aldrei urðu menn er litli bróðir minn niður kirkjugarði sem dó, litli bróðir minn sem er alger andstæða mannsinns hinu megin við bylgjað glerið, sem er eilífur og mun aldriei deyja. Hann hverfur niður brattann og ég snarast í dyrnar og horfi á Töfluteiginn í Brekkufjallinu. Töfluteigurinn er hæstur og breiðastur með kletti efst. Þessi teigur er pabbi. Eilífur, í miðju, og yfir öllu hinum teigunum sem eru raunverulega fólkið á Brekku. Ég hef samt aldrei verið fullsáttur hve Helga frænda var skammtaður stór teigur miðað við að hann var ógiftur og mjög grannur maður. Þessi teigur bara glottir sigurglotti við mér í þottahúsdyrunum og lyftir vinstri augabrún í fullkomnu háði. Svona er Helgi þrátt fyrir allt undir niðri, þrátt fyrir að fá sér aldrei nema einusinni á diskinn og eina ausu af graut og sparar útákastið og svo einn sykurmola með kaffinu á eftir. Þarna í fjallinu sýnir hann sitt rétta eðli og ætlar sér áræðanalega að ráða yfir pabba líka eins og okkur þegar mamma og pabbi skreppa í kauffstað. Ég gríp fyrir hægra augað og flissa að heimskulegum plönum Helga. Þessi maður sem kom fljúgandi fyrir hornið um daginn til að hremma mig í háttinn og ég þurfti ekki annað en að sveigja mig á hlaupunum til hann gripi í tómt Að hann ætli sér að ráða yfir pabba er fáránleg hugmynd. Ég passaði mig að hlaupa nógu stutt að hann freistist til að gera aðra tilraun. En hann sendi mér bara tóninn og jós skömmum yfir hundinn sem hann kallaði Vask, en hét auðvita Kátur. Helgi hafði sex tugi umfram mig og hafði lifað urmul hunda alla öldina sem hétu hitt og þetta. Kátur hélt að skammirnar stöfuðu af fénu í túninu og rauk í lamféð og Helgi var enn æstari út af öllu saman og steitti hnefa á eftir “Trygg” og staðhæfði við “Trygg” að ég hefði sigað honum í lamféð. Þessi fullyrðing stóðst bara alls ekki. Þó Kátur hefði litið á mig út af skömmunum í Helga og ég nikkaði hundinn sem tók þegar til fótanna gat Helgi ekki fullyrt að ég hefði “sigað” hundinum, þar að auki sem hann gat ekki hafa tekið eftir örfínni höfuðhreyfingu sem ekki er á færi annara en hunda að sjá meðan hann jós sér yfur hundinn.
Ég stekk út á hlaðið tek vinkilbeyju til vinstri, snar sný við tek nokkur löng skerf og bremsa með tilheyrandi hljóði. Slökunin sem hundurinn hafði náð hverfur honum algerlega. Það er komið að "Því" að hans mati og hann er tilbúinn. Ég stoppa og hlusta á suðið. Suðið á sumrin er allt að fjórum tónum neðar en á veturnar, og svo aftur einum tóni neðar úr Hraunshorninu. Það er rangt sem haldið er fram að ég hafi sagt að Hraunshornið megi ekki suða. Það má alveg suða og er aðallega útaf því að það er svo hógvært í suði sínu og svo er þetta fjallið hans Halla sem alltaf stendur með mér gegn eldri bræðrunum mínum.
“Réttu mér hamarinn og tvær tretommur”. Hann var að laga grind, tútomma var minnsti naglinn sem hann negldi. Hann reisir grindina bindur hana við jötubandið með fiskilínu sem er svo fast reyrð að engin slaki verður á línunni þó féð liggi utan í henni vikum saman. Ég hafði mikla andstyggð á þessu, það vissi á að ég þyrfti að taka þátt verkum búsins sem mér fannst ávallt út í hött út frá verkfræðilegum sjónarmiðum. Standa fyrir fé, reka fé til hægri, reka fé til vinstri. Standa eins og fáviti, og ég stóð eins og fáviti með hendur í vasa og ein ærin stökk yfir höfuðið á mér. Helvítis rollan mátti fara til “andskotans” sagði ég. Pabbi kallaði úr hinu horninu á réttinni og bauðst til að negla hendurnar á mér fastar í buxnavasanna. Ég fór sótti hamarinn og nokkrar fírtommur og færið honum. Hann þreif af mér hamarinn og kastaði honum tuttugu og fimm metra leið inn um op sem var 40x70 cm. Svo var það búið. Tuttugu árum seinna á septemberkvöldi gengum við án nytsemi fram Brekkudal. Himinn var svartur, jörðin var svört, það var hljóð, það var blinds manns sýn. Við gengum þessa erindisleysu fullum gönguhraða. Hann strýkur annað slagið niður hendi í gróðurinn og veit nákvæmlega hvar við erum.

Ekki löngu síðar opna ég dyrnar á innsta herberginu á deild 13 á Landspítalanum. Hann liggur opinmynntur í rúminu.
Nár.
Andartak líður og ég átta mig hvað gerst hefur. Ég næstum hló upphátt og hugsa: “Haha þetta mun nú ekki standa lengi”! Ekkert gat haggað trú minni á elífð þessa manns og sú trú stendur enn þó ég hafi borið hann til moldar og grafið í jörðu með eigin höndum. Enn hljómar strengurinn óhrökkvinn í brjósti mér frá furðulegum dögum.

Hann er nítíu og átta í dag.


Bloggfærslur 15. desember 2019

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband