Ekkert Smáræði

Hann stendur við neðstu tröppu stigans með fornan bangsa frænda sinna undir vinstri hendi stingur þumli hægri handar í síðuna horfir uppá mig og bíður. Við skulum labba, segi ég og hann byrjar að ganga upp stigann og ég á eftir uppí herbergi. Ég opna og við göngum inn. Hann klifrar uppí koddamegin leggst í afarúm og ég við hliðina. Við notum lítið texta. Svo liggjum við og horfum upp í súðina. Að horfa upp í óheflaða súð er undirstaða norrænnar listar. Táknsæisstefnan og expressionisminn, eða sjónrænt tungumál tilfinninganna varð til af því að Edvard Munch svaf undir súð þegar hann var lítill strákur í Noregi. Kvistirnir í súðinni eru ekki lengur lifandi fyrir mér en hjá fjögurra ára strák eru þeir allir lifandi fólk, mismunandi fólk sem hefur átt sín örlög og meiningu. Þeir líkjast sumir fígúrunum í tölvunni en eru þó mun yfirvegaðra og raunverulegra fólk. Samt er veruleiki þeirra sjálfstæður og hver kvistur sérstök veröld útaf fyrir sig en mynda samt sameiginlega veröld í vitund sjáandans. Hann sest varlega upp setur vísifingur hægri handar inn í gat í súðinni þar sem vantar kvist, þreifar vandlega allan hringinn dregur fingurinn svo út og horfir í gatið drjúga stund. Hann prófar að taka fyrir augað sem snýr fjær mér – en það gerir ekkert annað en að staðfesta þá sýn sem hann sá með báðum. Hann ályktar að þetta gat sé opinn munnur sem segi ooooooooo og engin sérstök veröld eða heimur sé á bak við gatið. Og þó, hver er megnugur að fullyrða það? Hann er ekki viss en lætur gott heita, maður verður að lifa með óvissu. Hann veltir nú fyrir sér hvað þessi einstaklingur heiti. Hann heitir Oi. Hann lítur á mig og leggst á koddann. Málið er nefnilega að þetta er leyndarmál, það má enginn vita að hann sé skyggn á þetta fólk í súðinni og bitanum. Hann veit að hlutverk sjáandans er að leiða hinn blinda og þegja um að skuggamyndirnar á hellisveggnum eru ekki frummyndirnar. Það er til dæmis trúnaðarmál að kvisturinn neðarlega í bitanum er fatlaður, andlitið er svo rosalega skakkt að hann á mjög erfitt að koma frá sér hljóði. Það korrar í hálsinum á honum. Hann hefur sérstaka samúð með þessum kvisti og finnst að fólk ætti ekki að sneyða að honum heldur leggja honum gott til. Hann heitir Skrolli. Hann veit fyrir víst að Skrolli hefur mátt þola ranglæti. Það var um daginn að kona kom í heimsókn til mömmu. Þær sátu við borðstofuborðið og vóru að spjalla þegar konan hallar sér fram lætur framhandlegginn skella í borðið og segir: “Fólk hugsar sko ekki áður en það talar og það gerir sér enga grein fyrir hvað það lætur út úr sér” !!!. Vanalega heyrði hann bara óm þegar fólk var að tala, en --hann snarstoppaði. Vissi hún um kvistina? Hann hafði sérstaklega Skrolla í huga. Hann ákvað að láta sem ekkert væri og láta nýja hákarlinn halda fluginu áfram, þó með þeirri breyttu flugáætlun að hann lét hann fljúga fyrir aftan konuna. Hann horfði á hákallinn hélt fyrir annað augað og lét hann bera sjónhendingu í herðasaum skyrtunnar sem konan klæddist. Þetta var ekki vandalaust flug þar sem konan var talsvert á iði og svo hitt að saumarnir tóku tvær niðurdýfur sitt hvoru megin á herðunum. Þetta gaf rúman tíma fyrir vissu um að það var ekki út af framkomu fólks við Skrolla sem konan var svona æst. Hún minntist ekki orði á kvistina í súðinni. Þetta var svolítill léttir en hvað vita hinir fullorðnu um veröld fjögurra ára stráka, sennilega ekki mikið. Í trausti þess rís hann nú aftur upp til að skoða betur kjaftinn á Spúa. Spúi var bókstaflega með muninn út við eyra. Hann stingur nöglinni varlega í sprunguna sem myndar kjaftinn, og jú, þetta er ofboðslegra en það sýndist frá koddanum. Til að villa um fyrir mér gerir hann nokkrar veifur út í loftið sem þýða ekki neitt. Hinu megin við bitann er sérstakur kvistur sem er stærri en aðrir kvistir. Hann er með stórt auga hægra megin en vinstra augað er hérumbil alveg lokað. Hann dregur líka vinstra munnvikið dálítið til hliðar. Hann á mjög erfitt með að standast auglit þessa kvists, hann er einhvern veginn svo spaugsamur eða stríðinn, er að blikka hann eins og þeir eigi eitthvert alveg sérstakt leyndarmál saman. Hann veit ekki til að þeir eigi neitt leyndarmál og varla hægt að segja að þeir þekkist neitt sérstaklega. Það er því alltaf nokkuð kvíðaefni hvernig skuli taka á málinu þegar hann fer í afarúm. Hann hafði prófað þegar amma fór upp með honum að leggjast strax á fjóra fætur og skríða meðfram rúminu uns kvistur þessi var úr sjónmáli fara svo uppí rúmið koddamegin. Amma hafði ekkert skilið í þessum tiktúrum hans eins og ekki kæmi til greina að hann væri að gá að kettinum eða bara að sýna bangsa undir rúm. Fullorðið fólk skilur ekki neitt. Nú var hann kominn uppá lag með að láta afa opna hurðina og flýta sér að vera við hliðina á honum þannig að kvisturinn gat aldrei gefið honum þessa leiðinlegu augnsendingu sem olli honum svona mikilli blygðun. En—var þetta ekki óheiðarleg framkoma gagnvar þessum kvisti sem hét ekki neitt? Jú, það var ekki hægt að neita því. Það kom upp í honum nokkur samúð þegar hann var laus undan augliti hans. En það gat enginn fullyrt að hann ætti sök á því, það var alls ekki honum að kenna að þessi kvistur hafði tekið sér bólfestu einmitt þarna, kannski fyrstur allra. Hann liggur nú góða stund horfir bara á hvítmálaða hilluna og hugleiðir þennan hnút sem hann er kominn í. Það verður úr að hann sest upp heldur til öryggis bangsanum í vinstri og réttir fram hægri hendi framyfir bitann þannig að NN-kvistur ætti að sjá handabakið. Hann var ákveðinn í að sýna ekki lófann, þessi kveðja varð að duga handa NN. Þannig er réttlætið, það er ekki á færi eins fjögurra ára stráks að bera allt réttlæti heimsins sama hve mikið sem hann þráir það. Sumir teljast heppnir að fá ekkert alla æfi nema viðleitni, maður verður líka að hugsa um sjálfan sig það bara verður ekki hjá því komist. Þetta róaði huga Sigurðar Hrafns til að geta lagst á koddann með nógu hreina samvisku til að gera greinaskil í hugsun sinni. Hann dregur andann snöggt varpar honum jafnskjótt sveigir höfuðið aftur á koddanum og heldur um hinn margnotaða bangsa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 44688

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband