Útför.

Ég sit hjá líkmönnunum kistan er á vinstri hönd sem geymir lík mágs míns á fertugasta og þriðja aldursári, það er stormur í huga mér eins og vant er. Hvernig líður hinum látna ? Fer nægilega vel um hann ? Væri rétt að hagræða honum til? Í hvernig skóm er presturinn sem nú mælir fram texta og allir standa upp? Ég hef sosum ekki miklar skoðanir á prestum en mér finnst þó að skór þeirra eigi að vera með kúlutá sem gerð er úr sér stykki ásaumuðu við aftari stykkið. En málið vandast því presturinn er kona. Og þó, ég get ekki séð eftir umhugsun að það ætti að skipta máli gagnvart skóm. Karlmenn eru flestir skrifstofuklæddir, það er svo dæmi um hve karlar staðarins eru óvanir að klæðast skrifstofubúningi að vélsmiður einn kom akandi með konu sinni undir stýri til öryggis væri lögregla á eftirliti. Svo samofin eru skrifstofuklæði dansleikjahaldi og snafsi. Og enn mælir presturinn fram texta og kórinn syngur sálm. Ég fer aftur að hugsa um hinn látna. Ég tek ekki mark á látnu fólki. Ég skil af hverju látið fólk liggur og hreyfir sig ekki, en að það þurfi ekki að hagræða því og af hverju það andar ekki skil ég alls ekki. Þó finnst mér þetta ekki óheiðarleg framkoma í sjálfu sér nema þegar myndin birtist af þeim látna í blaðinu þá lýsir svipurinn ákveðnu undirferli eins og á fólki sem hefur náð að gabba mann --- góðlátlega þó.

Presturinn mælir nú fram texta aftur snýr sér að altarinu og kórinn syngur sálm. Ég nota tækifærið dreg aftur hægra auga tek mið af fjórða pílára frá horni sem stendur upp af grátunum og í skóhæl prestsins. Ég þurfti þó að hnika höfði örlítið til að fá gott mið.

Og nú snýr presturinn við gefur merki og við líkmennirnir stöndum upp förum sitt hvoru megin við kistuna snúum henni og hefjum á loft. Kistan er mjög þung sem lendir mest á mér þar sem ég hæstur þessara lágvöxnu kistubera. Við göngum fram gólfið undir söng og spili Eric Clapton "Tears in heaven".  Þegar ég er öruggur um að botninn haldi fæ ég herping fyrir brjóstið. Sá sem ég ber núna með hinum er ekki að grínast. Hann er ekki og mun ekki verða. Við rennum kistunni inn í vagninn. Sjakketklæddur bílstjórinn leggur hurðirnar aftur sest undir stýri og ekur af stað. Ég geng rösklega á eftir vagninum af mikilli ábyrgðartilfinningu eins og útför þessi sé sérstaklega á mínum vegum og kem rétt á eftir vagninum í garðinn.

Líkvagninum er lagt þannig aftari endinn veit inn í garðinn, síðan hefst bið eftir gestunum. Virðulegi bílstjórinn skimar í kring bendir líkmönnum að koma og raða sér upp, hann gerir þetta af mikilli fagmennsku sem einkennir utanbæjarmenn þegar þeir ætla að sína innanbæjarmönnum hvernig menn bera sig að í þessum aðstæðum fyrir sunnan. Hann gengur að bifreiðinni lítur höfði tekur hanskaklæddum höndum um hurðarhúnana opnar hurðirnar virðulega með báðum höndum gengur svo afturábak milli líkmannanna og hneigir sig. Líkmennirnir draga kistuna út til hálfs standa og bíða. Utanbæjarsjakketmaðurinn snarvendir með viðhöfn og hyggst ganga af stað. Eftir öllu fannst mér að hann ætti að fara gæsagang. Það reynir ekki á það. Skyndilega tekur úlpuklæddur maður sig út úr gestahópnum með húfu niður í augu og belgvettlinga. Hann tekur þegar til starfa sópar burt mold af kistunni eftir moldun prestsins í kirkjunni. Hann gefur ítarlega lýsingu á verki sínu skrækum rómi og gjörhreinsar öll óhreinindi af kistunni. Ég stíg eitt skref fram einn manna, hvað er að gerast? Ekki sér glöggt hvaða maður þetta er eða hvað hann ætlar sér.  Úlpumaðurinn gefur skipanir út og suður hallar höfðinu aftur vegna húfunnar sem er alveg niður í augu býst svo til að ganga af stað án þess að virða hermarskálkinn viðlits sem var rétt í þessu að snúa sér, og segir: "Koma, koma". Líkmennirnir fylgja þessum skelegga undanfara sem hvað eftir annað snýr sér við og rekur á eftir líkmönnunum og líkfylgdinni. Þegar að gröfinni er komið gefur hann nákvæmar fyrirskipanir hvernig skulu háttað með kistuna gerir svo einhverskonar krossmark það rösklega að vettlingur hægri handar flýgur af, tilkynnir síðan að aðrir skulu fara að dæmi hans tekur upp vettling sinn og er horfinn í hópinn aftur.

Nú hefði mátt ætla að maður þessi yrði þegar handsamaður og fluttur af vettvangi svo alvarlegrar athafnar ellegar að athöfnin leystist upp í hreinan farsa. Gerðist það þá ekki? Með skimun var ekki að sjá á nokkrum manni að eitthvað óeðlilegt væri að gerast, eða hefði gerst. Að bylting skuli gerð í miðri útför og útfararstjórinn afsettur af manni sem engum gat dulist að var vangefinn vakti enga athygli  útfarargesta. Þetta var hann Hjalti Þórarins. Hjalti hafði hingað til skipað sér í þau embætti sem honum sýndist án efasemda nokkurs manns. Það kom svo fram er ég fór að orða málið ofurvarlega að Hjalti var yfirverkstjóri á vinnustað hins látna og ók með honum vörur um alla Vestfirði passaði uppá þrif, kaffitíma og annað sem þurfti að hafa reglu á. Þarna var vinur Hjalta borinn til grafar, vinur sem aldrei hafði efast um tilveru Hjalta, vinur sem aldrei efaðist um hans verkstjórn á ferðum milli þorpanna á Vestfjörðum.

Ég, klæddur að hætti bankamanns sem situr á bak við gler, sunnanmaður, brottfluttur.  Það var Hjalti Þorsteins, bróðir Sínu Jórunnar og þeirra sem braut glerið, rauf skilvegginn milli himins og jarðar.

Ég stóð á meðal minna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 44692

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband