Rúmsena

 

Ég ligg á bakinu undir súðinni og virði fyrir mér þakbitann í þúsundasta skiptið, þetta er fimm sinnum fimm tommu biti, kvistaður og nokkuð sprunginn. Ég hafði verið kvefaður undanfarið og hlaupið í keng af hnerra margoft en þó sloppið við að setja hausinn í bitann.

Þegar ég var sex sjö ára hélt elsti bróðir minn því mjög að mér að út um ennið á mér yxi oddur og styngi ég hvað sem fyrir var með oddinum og þá heyrðist: odd, odd, odd. Ég hef aldrei verið fyllilega laus við þetta og óttast mjög að ef ég hnerri eða rísi snöggt upp þá muni ég keyra oddinn í bitann og sitja þar fastur, því þó auðvelt sé að odda sig fastann er hægara en sagt en gert að losa sig. Ég hef viðrað þetta við konuna en hún vill ekki hlusta á "kjaftæði". Í þessu kemur konan úr baðinu og inn í herbergið, hún dæsir af hitakófi því sem býr innra með konum á virðulegum aldri gengur að glugganum sem veit út á þakið og galopnar. Gluggi þessi er vel manngengur og nær alveg niður á þakið sem hallar mjög lítið og er nokkuð stórt einir tíu metrar á lengdina og fimm á breidd.
Ég greini henni frá ótta mínum að festast í bitanum en hún svarar að þetta sé ekki fyndið lengur sest á rúmstokkinn og ber krem á fæturnar leggst svo niður og snýr baki í mig en segir um leið og hún leggst: Ég ætla að hafa gluggann opinn í smá stund og láta kólna smá. Síðan teigar hún svalann.


Þögn.


Ég: Hvað ætlar þú að gera ef það kemur kind inn um gluggann?
Kind!!!!
Já kind!
Af hverju heldur þú að það komi kind inn um gluggann. Eru engin takmörk á þeirri vitleysu sem þér getur dottið í hug? Þessu fylgir stutt ágrip af því "kjaftæði" sem oltið hefur út ur mér síðasta aldarfjórðung.

Jah! Það er aldrei að vita hvað getur gerst, segi ég.
Hún segir afturfyrir sig, og er nú risin upp á olnbogann til áherslu, að: Primo. Það séu engar kindur í Reykjavík. Secundo. Hvernig á kind að komast upp á þak? Tertio. Af hverju ætti henni að detta í hug að fara inn um glugga? Það var stígandi í röddinni og hún hendir sér niður á koddann og breiðir sængina í fússi yfir öxl til áherslu um að samtalinu sé lokið.
Ég segi að henni væri nær að hugsa um hvernig hún ætli að koma rollunni út, því að þó rollur fari inn um glugga eða op sé vonlaust að koma þeim út um sama op og þetta endi ávallt með hlaupum hringsnúningi og fótskriðu og öruggt sé að rollan skíti við svona aðstæður og hvar ætli hún að stíga þá niður, berfætt með nýáborna fætur þegar gólfið sé undirlagt af kindaskít???!!!!!!! Þar að auki gæti mér brugðið svo við gestkomuna að ég keyri mig alveg fastan í bitann. Þetta endar á að hún sprettur upp hallar glugganum aftur og setur járnið í þriðja gat, hún tilkynnir í leiðinni að þó ég sæti fastur í bitanum þá muni hún ekki lyfta litlafingri til að losa mig.

Daginn eftir að loknum vinnudegi er eins og ekkert hafi ískorist ekki minnst orði á sauði og ég ekki fastur í bitanum.

  Konan segir mér í fréttum að hún sé á leið til Færeyja um helgina á ráðstefnu norðurlandanna, hann Olaf sé að hætta og henni hafi verið falið að flytja þakkar og skálaræðu honum til heiðurs við kvölverðinn, hana kvíði fyrir að flytja skálarræðu í Færeyjum og það á dönsku.
Af því að mér fannst halla á mig eftir gærkvöldið og svo það að mér var ekki boðið með þá set ég á þessa tölu: Þvöh! Héld það sé ekki mikill vandi, systir mín hélt ræðu við aðmírálaskipti á Vellinum forðum og það á ensku án þess að nokkur maður hefði vitað að hún væri mælt á þá tungu hérumbil ódrukkin þar sem ég hefði drukkið uppúr flestum glösunum sem Kanarnir vóru sí og æ að bera henni, hún á örugglega þessa ræðu enn og væri þér ekki skotaskuld að snara henni af ensku á danskt mál sjálf með bókmenntagráðu í ensku, vilt að ég hringi í hana, ha!? Það þarf ekki annað er hafa skipti á Tjalhers og Olaf. Þessu er hreinlega ekki ansað einu orði.


Það er flogið eldsnemma frá Reykjavík og ek ég henni í flugið. Um kvöldið sit ég í sófanum og er að velta fyrir mér hvort ég eigi að taka Stóra-skyldu-fylleríið út á Club Clinton eða Bóhem þegar síminn hringir og það er frá útlöndum. Hinumegin er það konan, all óðamála. Ráðstefnan var búin og allir farnir uppá herbergi að slappa af baða sig og sjæna fyrir kvölverðinn, þegar hún opnar hurðina að sínu herbergi þá, ..........já þá stendur fjórum fótum með felmtur í augum kind og jarmar mót henni með poll í hálsi sem flestar miðaldra kindur hafa. Hún lokar og opnar aftur í trausti þess að þessi sýn hverfi, en rollan er staðfastlega enn á gólfinu. Og nú gerist allt samkvæmt áðursögðu handriti. Ærin hleypur í hringi skítur rennur fótskriðu á dúknum og stekkur upp í rúm og ofan á ferðatösku. Ég er spurður uppi á Íslandi í síma: Hvað á ég að gera!!!? Ég segi að ekki sé annað að gera í stöðunni en fara niður í móttöku og tilkynna innbrotið sem hún gerir. Manninum í móttökunni bregður ekkert en segir henni að fé sé oft á beit á þaki hússins og ef gestir skilji eftir glugga á gátt þá sé segin saga að þær fari inn, hann hleypir svo rollunni út á plan.
Mér finnst ég hafa haft nokkurn sigur í þessu kinda/herbergismáli en þó skal ég viðurkenna að ég strauk mér alloft um enni þegar ég var kominn uppí um kvöldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Gaman að lesa þetta! ;) Skrifaðu bók...

Óskar Arnórsson, 24.5.2012 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kristján Sigurður Kristjánsson

Höfundur

Kristján Sigurður Kristjánsson
Kristján Sigurður Kristjánsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband